top of page

Er kaffidrykkjan þín að valda þér veseni?


Ert þú einn af þeim sem fær sér kaffi á kvöldin og segir: "þetta hefur engin áhrif, það slökknar á mér um leið og ég leggst á koddann, sama þótt ég fái mér tvo jafnvel þrjá bolla eftir kvöldmat". Þarna ert þú að misskilja. Það getur vel verið að þú sofnir auðveldlega þrátt fyrir kaffidrykkjuna en djúpsvefninn þinn fær rækilega að gjalda fyrir það. Ástæðan er sú að koffín örvar þann part af taugakerfinu sem kemur í veg fyrir að líkaminn nái nægri slökun. Hvað er djúpsvefn? Djúpsvefn sér um að koma viðgerðarferli líkamans af stað. Þetta er mikilvægasti svefninn sem við fáum og stendur yfir í 1,5-2 klst á góðri nóttu. Með þessu má útskýra hvernig morguninn eftir læðist að þér löngun í annan kaffibolla, bara svona til að koma "deginum af stað". Þessi löngun vex síðan og bollarnir verða fleiri og fleiri þar til þú ert farinn að hafa kaffikönnuna á náttborðinu. Nú þarft þú fjóra eða jafnvel fimm bolla bara til þess að komast í gegnum daginn. Til lukku.. Þú ert kominn í vítahring. Ekki misskilja mig samt, ég er alls ekki á móti kaffi né tel ég það vera óhollt. Kaffi er ríkt af andoxunarefnum og ég trúi því að hóflegt magn af koffíni örvi taugakerfið á góðan hátt. Það má þó deila um hvaða áhrif skordýraeitrið og annað sem sprautað er á flestar ólífrænar kaffibaunir hefur á líkamann, en það er annað mál í annan pistil. Annars er líka alltaf hægt að kaupa lífrænt kaffi. Þegar þú þarft á hverjum morgni að sækja orkuna þína úr kaffibollanum eða annari koffín uppsprettu, þá ert þú að mínu mati á slæmum stað í lífinu. Undir eðlilegum kringumstæðum sér líkaminn sjálfur um að framleiða orku. Með góðri næringu, heilbrigðum svefnvenjum og markvissri streitustjórnun hefur hann allt sem þarf og þín koffínhjálparhönd ætti því að vera óþörf.

Koffín neysla veldur framleiðslu á hormónunum cortisol (stresshormón) og epinephrine (adrenaline). Þessi hormón eru framleidd í nýrnahettunum með samspili heiladinguls og undirstúku heilans (HPA-axis). Rannsóknir hafa sýnt fram á að koffín hækkar cortisol og epinephrine í líkamanum það mikið að magnið náði svipað háum gildum og myndi mælast hjá manneskju eftir áfall eða annan mjög streituvaldandi viðburð. Með öðrum orðum, þá býr koffín til streituástand í líkamanum og til lengri tíma getur það valdið haug af heilsufarsvandamálum. Nýrnahetturnar eru kirtlar sem sitja ofan á nýrunum og framleiða nokkur önnur hormón sem að hafa einnig áhrif á t.d. Blóðþrýsting, skjaldkirtilinn, efnaskipti (brennslu) og kynhormón. Svo þetta er ekki endilega kirtill sem þú vilt ofgera. Þetta endar ekki þar því langvarandi streituástand í líkamanum hefur einnig gríðarlega slæm áhrif á þarmaflóruna. Það býður upp á annan heim af allskonar öðrum vandamálum. Þú getur lesið betur um það í annari grein frá mér hér. Ert þú alltaf orkulaus? Ert þú með blóðþrýstings vandamál?

Ert þú með skjaldkirtils vandamál? Átt þú erfitt með að brenna fitu? Er kynhvötin þín lægri en þér þykir eðlilegt? Þarft þú kaffi til að koma þér í gang á morgnana?

Það er þó ekki einungis ofneysla koffíns sem veldur framleiðslu cortisol heldur allt stress. Stress útaf vinnu eða skóla, æfingum, fjölskylduvandamálum, lélegu mataræði, svefnleysi o.s.frv. Fyrir líkamanum er þetta allt sama stressið og þegar framleiðslan verður of mikil hafa nýrnahetturnar ekki undan álaginu og vandamálin byrja að læðast inn.

Ef eitthvað að atriðunum að ofan eru þér kunnugleg mæli ég með að þú endurskoðir hvernig þú stjórnar streitunni í þínu lífi og gangir úr skugga um að koffín sé ekki þín helsta orkulind. Hvað ráðlegg ég? Taktu koffínlausar 2-4 vikur, drekktu mikið vatn (0.033xlíkamsþyngd) og fylgstu með því hvað gerist. Í framhaldi mæli ég með 0-3 kaffibollum á dag og ALLS EKKI eftir kl 3 á daginn. Líkaminn þinn er klárari en þú heldur og gerir allt sem hann getur til þess að styðja við lífstílinn þinn. Ef hann sendir þér skilaboð (orkuleysi sem dæmi) sýndu honum (þér) þá virðingu og hlustaðu á það en ekki bara drekkja því með kaffi því það mun koma niður á þér fyrr frekar en síðar.


 

Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem læknisráðgjöf. Notkun upplýsinganna sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.


0 comments

Comments


Skráðu þig á póstlistann!
360 Heilsa .jpg

Smelltu
til að hlusta!

bottom of page