top of page

Uppfyllir þú þennan heilsutékklista?


Hér að neðan er nokkurskonar “tékklisti” fyrir almenna heilsu. Ert þú að uppfylla þessi atriði?

  1. Liturinn á þvaginu þínu Ef þú ert að drekka nægilega mikið vatn ætti þvagið þitt að vera nokkurn vegin glært. Þvag sem er alltaf gult gefur til kynna vatnsskort sem eykur álag á líkamann. Lausnin við þessu er að drekka meira vatn á milli máltíða. Athugaðu þó að ef þú byrjar að pissa eins og hestur í kjölfar aukinnar vatnsdrykkju, þá mæli ég með að setja ÖRLITLA klípu af sjávarsalti í vatnið til að auka steinefnagildið.

  2. Óhófleg koffín drykkja Orkuleysi er oftar en ekki falið á bakvið ofneyslu koffíns. Taktu 1-2 daga án þess að fá þér koffín og taktu eftir því hvernig þér líður. Vannæring, lélegar svefnvenjur og óhóflegt stress leiðir oft til þess að fólk tekur “stuttu og einföldu” leiðina með því að teygja sig í koffín drykki eða önnur örvandi efni sem kemur yfirleitt niður á þeim síðar. Það er þó engin ástæða að hætta alveg kaffidrykkju, en ef þú stólar á koffínið til að halda orkunni uppi, þá er nokkuð ljóst að þú þurfir að endurskoða þín heilsumál.

  3. Hægðarlosun Daglegt viðmið af losun hægða eru um það bil 30 cm. Þetta getur verið í einni ferð eða eftir hverja máltíð. Ef þú ert ekki að hafa hægðir að minnsta kosti 1x á dag þá eykur þú líkurnar á uppsöfnun eiturefna í líkamanum sem býður hættunni heim. Lausnin við hægðarvandamálum er minna stress og auka magn af hollum og næringarríkum MAT, ekki gerviruslinu sem er að finna á hverju götuhorni í dag. *Hér er dæmi um heilbrigðar og óheilbrigðar hægðir*

  4. Hausverkir Að fá hausverk í hverri viku eða aðra hverja viku er eitthvað sem ætti að vekja þig til umhugsunar um eigið heilsufar. Oft getur þetta verið vísbending um óheilbrigða þarmaflóru. Of mikil streita, óhófleg áfengisneysla, mataróþol/ofnæmi og of lítil vatnsdrykkja eru allt hlutir sem stuðla að óheilbrigðri þarmaflóru. Reglulegir hausverkir er einfaldlega líkaminn þinn að senda þér skilaboð um að þú þurfir að endurskoða þínar lífsvenjur. Áður en þú grípur íbúfen pakkann, prófaðu t.d. að drekka meira vatn eða fara í göngutúr.

  5. Slæm húð Bólur geta verið merki um að lifrin á þér sé undir ofálagi vegna úrgangs- og eiturefna. Þegar líkaminn hefur ekki undan því að skola eiturefnin úr líkamanum með hægðum eða þvagi þá er húðin næsta útgönguleið. Óheilbrigt mataræði og lífstíll er yfirleitt ástæðan. Lausnin er einfaldlega að taka heilsuna föstum tökum. Hlustaðu á skilaboðin sem líkaminn sendir þér og notaðu þau sem leiðarvísi að bættri heilsu.

  6. Pestir og kvef Veikburða ónæmiskerfi býður pestunum í heimsókn. Ef að þú nælir þér í pestir eða kvef að staðaldri 2x á ári eða oftar, þá er ónæmiskerfið þitt augljóslega ekki að standa sig. Með sterku ónæmiskerfi ættir þú auðveldlega að geta komist hjá því að fá svo lítið sem stíflað nef árum saman. Mataræði, svefn, hvíld, hreyfing. Ræktaðu þessa 4 þætti á heilbrigðan hátt til þess að styrkja ónæmiskerfið og koma í veg fyrir pestir og kvef.

  7. Tannskemmdir Rannsóknir eftir Dr. Weston Price á samfélögum frumbyggja sýndu að meðaltal tannskemmda hjá þessum samfélögum var tæplega ein tannskemmd á hverja manneskju. Eftir því sem samfélög færðust nær verra mataræði (hvítur sykur, hvítt hveiti, gerilsneyddar mjólkurvörur og borðsalt), því hærri var tíðni tannskemmda. Munnurinn á þér hefur að geyma margar vísbendingar um almennt heilsuástand líkamans þíns. Ef þú ert reglulega með tannskemmdir er það augljóst merki um að þú þurfir að taka mataræði og lífstílinn í gegn.

  8. Ýkt hungurþörf Það er ekki eðlilegt að finna fyrir svengd nánast allann daginn. Svengd á heldur ekki að leiða til þreytu og skapsveifla. Ef þú upplifir oft ýkta hungurþörf er það vísbending um að matarvenjurnar þurfi að skoða. Passaðu upp á blóðsykurinn með því að sniðganga viðbættann sykur og einföld kolvetni ein og sér. Bættu inn meira af hollum fitum sem hjálpar við að halda blóðsykrinum jöfnum.

  9. Stanslaus þreyta Ef þú upplifir stanslausa þreytu þá er of lítill svefn, ofálag í vinnu/á æfingum, næringarsnautt mataræði eða lítil vatnsdrykkja yfirleitt ástæðan. Í stuttu máli ertu ekki að hugsa nægilega vel um sjálfa/n þig. Breyttu því.

  10. Virkilega slæm líkamslykt Ef að hægðirnar þínar lykta eins og geislavirkur úrgangur, þá er augljóslega um að ræða óeðlilegt líkamsástand. Það sama á um vindgang. Það eitt að reka við óhóflega mikið er vísbending um óheilbrigt líkamsástand. Þegar lífstíllinn samanstendur af rusli, þá máttu búast við því að handakrikinn á þér og andardráttur lykti líka eins og rusl. En sem betur fer er lausnin við þessu einföld. Ekki nota munninn á þér sem ruslagám.

Ef þú fórst yfir allann listann, þá tókstu eflaust eftir mynstrinu.. Þetta kemur í raun allt niður á því að: Nr.1 - Borða hollann mat... Þegar ég segi hollann mat að þá meina ég náttúrlegan mat sem kom frá jörðinni. Ekki nýja cookies & cream prótein stykkið og “hollustu” protein búðingurinn með 15 mismunandi nammibrögðum. Nr.2 - Stjórna streitunni í lífinu.. Ekki gleyma þér í daglegu amstri. Temdu þér núvitund og taktu meðvitaðar ákvarðanir sem haldast í hendur við þín gildi og markmið í lífinu. Nr.3 - Hlusta á líkamann og fá nægann svefn. Það er bara ekki flóknara en það.

 

Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem læknisráðgjöf. Notkun upplýsinganna sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.


0 comments

Comments


Skráðu þig á póstlistann!
360 Heilsa .jpg

Smelltu
til að hlusta!

bottom of page