Ert þú ekki örugglega að drekka kombucha?
Hvað er kombucha? Kombucha er í stuttu máli svart te sem hefur verið gerjað. Gerjunin gerir það að verkum að drykkurinn stútfyllist af góðgerlum, nauðsynlegum ensímum og vítamínum og þá sérstaklega B vítamínum. Þetta er, jú allt mjög gott fyrir heilsuna. Þrátt fyrir að kombucha sé tiltölulega nýtt fyrirbæri á Íslandi í dag, þá er drykkurinn talinn vera rúmlega tvö þúsund ára gamall og hefur lengi verið nefndur "The Immortal Health Elixir" eða "Ódauðlega heilsu seiðið" af Kínverjum. Heilsubomba er ekki það eina sem lýsir kombucha heldur er drykkurinn líka kolsýrður sem gerir hann að frábærum staðgengil fyrir hefðbundið gos. En hver drekkur svosem ennþá gosdrykki í dag...
Hátt innihald góðgerla gerir kombucha að einstökum drykk þar sem aðrar uppsprettur góðgerla eru af frekar skornum skammti í nútíma samfélagi (fyrir utan í töfluformi). Ég mæli því heilshugar með að fólk búi til pláss fyrir þennan drykk í mataræðinu og neyti hans reglulega. Kombucha fæst orðið í flestum matvörubúðum en ef þú vilt fá alvöru heimatilbúið kombucha þá mæli ég með að kíkja í verslunina Bændur í bænum á Grensásvegi! Fyrir þá sem eru aðeins lengra komnir er heldur ekkert mál að útbúa sitt eigið kombucha heima.
Ertu ekki enn orðinn sannfærð/ur um að Kombucha sé málið? Þá skaltu fara yfir fróðleikspunktana hér að neðan.
Kombucha vinnur gegn allskyns sjúkdómum
Góðgerlarnir í Kombucha bæta jafnvægi þarmaflórunnar, sem styrkir ónæmiskerfið til muna þar sem rúmlega 70% af ónæmiskerfinu er í þarmaflórunni.
Kombucha inniheldur einnig öflug andoxunarefni sem hjálpa líkamanum með afeitrun og ver hann gegn sjúkdómum. Andoxunarefnin vinna einnig gegn bólgum í líkamanum sem nýlegar rannsóknir sýna að sé rótin af mörgum þeim sjúkdómum sem plaga nútíma samfélag.
Kombucha bætir meltingu
Í kombucha er að finna hátt magn af ensímum og gagnlegum sýrum sem hjálpa við niðurbrot á matnum sem þú borðar. Sumar rannsóknir hafa einnig sýnt að Kombucha geti komið í veg fyrir magasár og hjálpað þeim að gróa.
Með því að koma jafnvægi á meltingarveginn með fjölgun góðra baktería minnkar þú líkurnar á ofvexti candida svepps.
Kombucha getur stuðlað að góðri andlegri heilsu
Það eru sterk tengsl á milli heilbrigðrar þarmaflóru og andlegrar heilsu. B vítamín og þá sérstaklega B-12 er vel þekkt fyrir jákvæð áhrif á orku og andlega vellíðan, þessi vítamín er að finna í miklu magni í Kombucha.
Kombucha getur haft sótthreinsandi áhrif.
Þetta hljómar kannski furðulega þar sem Kombucha inniheldur helling af bakteríum. En þær góðu bakteríur aðstoða í raun við að eyða öðrum slæmum bakteríum sem geta valdið sýkingum. Í rannsóknum sem voru gerðar á drykknum kom fram að hann hefur sótthreinsandi áhrif gegn e. coli, salmonellu, staph, kamphýlóbakter og fleiri bakteríum.
Gott fyrir hjarta- og æðakerfið
Þó ekki hafi verið gerðar margar rannsóknir á þessu, þá hafa nokkrar sýnt fram á að Kombucha hjálpi við stjórnun kólesteróls í líkamanum.
...þú sérð það, svart á hvítu, Kombucha er ekki bara fáránlega gott heldur líka meinhollt!
Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem læknisráðgjöf. Notkun upplýsinganna sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.
Comments