top of page

L.M.A. MATARÆÐIÐ - 4 vikna áskorun!


Réttu upp hönd ef þú ert farinn að þreytast á því að vita ekki hvað þú “mátt” borða og hvað ekki, hvaða matarkúr skilar árangri og hver ekki, hvað er virkilega hollur matur og hvað ekki.

Er fita holl og nauðsynleg eða gætir þú alveg eins stundað keðjureykingar? Eru kolvetni nauðsynlegur partur af heilbrigðu mataræði eða undirgöng í átt að offitu? Er óhætt að fá prótein úr kjöti, fisk og eggjum eða ertu þá kominn í fulla áskrift að hjarta- og æðasjúkdómum? Einmitt það sem ég hélt.. Matvælaiðnaðinum hefur heldur betur tekist að flækja fyrir fólki hvað það eigi að láta ofan í sig. Með klókum markaðssetningarbrellum koma reglulega ný “matar-æði” sem eiga að leysa öll vandamál og bjarga deginum. Hver kannast ekki við að skoða hillurnar í matvörubúðum og sjá glitta í - “Fat Free” - “Sugar Free” - “Low Sodium” - “All Natural” og listinn heldur áfram..

Hvernig hefur þetta virkað hingað til? Matvælaiðnaðurinn græðir á meðan hlutföll sjúkdóma og offitu hækka.

Málið er að kolvetni eru ekki bara kolvetni, fita er ekki bara fita og prótein er ekki bara prótein. Öll þessi efni hafa áhrif á hvort annað og frá hvaða uppsprettu þau koma skiptir máli. Til að mynda þá finnast trefjar í ávöxtum sem að gegna meðal annars því hlutverki að hægja á sykurupptökunni svo að ávaxtasykurinn fari ekki inn í kerfið hraðar en Usain Bolt tekur 200 metra.

Mig langar til þess að koma með nýja nálgun á mataræði.

Ég er að tala um að léttast án þess að fara á danska kúrinn, atkins, LKL eða kjúklingabringu og brokkolí matarplanið sem fitness gæinn í ræktinni þinni er á. Ég er að tala um að viðhalda eðlilegri líkamsþyngd án þess að borða eins og Tom Hanks í “Cast Away”. Ég er síðast en ekki síst að tala um að fá aukna orku án þess að þurfa að drekka sjö amino blöndur, nocco eða heilu könnurnar af kaffi. Þú mátt gera ráð fyrir að algengir kvillar líkt og meltingartruflanir, brjóstsviði, uppþemba, hægðatregða og sykurþörf heyri sögunni til! Hvernig væri nú að hætta að eltast við skyndilausnir, hætta að spá í hvort maturinn sé “Low” þetta og “Free” hitt og hoppa beint á L.M.A?

Nú hvað er þetta L.M.A spyrð þú eflaust.

L.M.A er eina hugtakið sem þú þarft að hafa í huga þegar þú ert að versla í matinn eða ákveða hvað þú ætlar að borða.

L.M.A - Lítil Mannleg Afskipti

Svo einfalt er það. Ef þú fylgir þessu eins vel og þú fylgist með Instagram þá munt þú finna fyrir virkilega jákvæðum breytingum á öllum sviðum til lengri tíma, líkamlegum og andlegum!

Reglurnar eru einfaldar: Það eina sem þú þarft að gera er að forðast öll matvæli sem búið er að hafa mikil afskipti af, þ.e. unninn matur.

L.M.A (Lítil Mannleg Afskipti) mataræðið:

Matur sem ber að nota og njóta:

  • Allt ferskt (íslenskt) kjöt, fiskur og egg.

  • Lífrænar mjólkurvörur.

  • Íslenskir eða lífrænir ferskir ávextir og grænmeti.

  • Glútenlaust korn - Brún grjón, hafrar, maís, hirsi, kínóa, amaranth, bókhveiti..

  • Hnetur og fræ.

  • Eldaðu upp úr góðri hitaþolinni fitu - íslenskt smjör (nei, ekki smjörvi), kókosolía, og avocado olíu.

  • Notaðu ólífuolíu eða hörfræolíu í salöt.

  • Í stað sykurs, notaðu kókospálmasykur, lífrænt hunang eða lífrænt hlynsýróp.

  • Prófaðu þig áfram með mismunandi jurtir sem hafa jákvæð áhrif á allskyns líkamsstarfsemi eins og meltingu, efnaskipti og ónæmis- og taugakerfið - basilíka, hvítlaukur, kanill, cacao, kúmen, engifer, sinnepsfræ, oreganó, steinselja, pipar, rósmarín, tarragon, timian og túrmerik.

  • Notaðu gæða sjávarsalt.

Matur sem ber að farga og forðast:

  • “4 hvítu djöflarnir” (hvítt hveiti, hvítur sykur, gerilsneyddar mjólkurvörur og borðsalt).

  • Allir gosdrykkir.

  • Allar sojabaunir og sojavörur.

  • Allt “pakka” morgunkorn.

  • Allar grænmetisolíur (repju, korn, þistil, sólblóma og soja).

  • Allur pakkamatur.

  • Allar fitusneyddar vörur.

  • Allur skyndibiti.

  • Allur dósamatur.

  • Allar pakkaðar kökur, kex, smákökur og snakk.

  • Allar pakkaðar sósur og ídýfur.

Er ég ekki enn búinn að vekja nægan áhuga hjá þér? Haltu þá áfram að lesa.

Mér finnst að þú ættir að taka þessa áskorun vegna þess að:

  1. Þú munt sanna fyrir þér að þú getir það!

  2. Þú munt öðlast aukna meðvitund á því hvað telst sem L.M.A matur þ.e. ferskur og hollur matur.

  3. Þú munt byrja að upplifa jákvæðar breytingar á líkamlegri og andlegri líðan.

  4. Þú kemst á heilbrigðan hátt í besta form lífs þíns og viðheldur því.

  5. Þú verður léttari bæði á líkama og sál.

  6. Þú eykur lífsgæðin til muna.

  7. Þú bætir starfsemi lifrarinnar þinnar og meltingu (og allra annara líffæra ef út í það er farið).

  8. Kvillar eins og uppþemba, vindgangur og meltingartruflanir munu heyra sögunni til.

  9. Þú munt hugsa skýrar.

  10. Þú munt ná að yfirstíga sykurþörfina.

Toppráð til þess að hjálpa þér að standast þína skuldbindingu að heilbrigðara líferni.

  • Hlustaðu á líkamann og hvernig honum líður. Ef að hann er orkulítill eða þreyttur er hann líklegast að kalla á vatn, svefn eða góða næringu frekar en kaffi, kók eða kex.

  • Reyndu að passa að flestar máltíðir innihaldi allar 3 fæðutegundir - kolvetni, prótein og fitu og í þeim hlutföllum sem þér finnst henta best. Þú getur prófað þig áfram með það næstu 4 vikurnar. Þetta snýst allt um að hlusta á hvað líkaminn segir þér.

  • Drekktu nóg af vatni á milli máltíða, eða u.þ.b. 0.033l x líkamsþyngd = magn í lítrum. Ekki er tekið inn í reikninginn æfingar né annað sem að þurrkar þig upp eins og kaffi, te, áfengi, gosdrykkir eða unninn matur.

  • Gerðu ráðstafanir fyrir fram - útbúðu vikuplan með máltíðum og innkaupalista með því að fylgja viðmiðunum hér að ofan.

  • Eldaðu tvöfalt í kvöldmat og taktu með afgangana í hádegismat daginn eftir.

  • Geymdu hollt snarl eins og hnetur, möndlur eða epli í vinnutöskunni þinni, á skrifstofunni eða í bílnum

  • Ef að maturinn var ekki til þegar langa-lang amma þín var á lífi, þá skalt þú ekki borða hann!

Það er alltaf að koma meira í ljós hvaða afleiðingar slæmt mataræði getur haft á líkama okkar og það er eitthvað meira en bara nokkur auka kíló! Sýnum líkamanum okkar þá lágmarksvirðingu að gefa honum bestu næringu sem völ er á og hættum að hugsa um hann eins og gamla bíldruslu sem er einungis notuð til að komast á milli staða.

 

Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem

læknisráðgjöf. Notkun upplýsinganna sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.


0 comments

Comentários


Skráðu þig á póstlistann!
360 Heilsa .jpg

Smelltu
til að hlusta!

bottom of page