top of page

Kostir þess að fara í kalda sturtu


Ert þú einn af þeim sem er alltaf mest klæddur en tuðar samt mest yfir því að vera kalt? Þú ert þá líka eflaust einn af þeim sem hryllir við þeirri tilhugsun að fara í kalda sturtu?

Ef þetta ert þú þá þykir mér leitt að segja þér það.. Þú þarft verulega að taka þig saman í andlitinu, því taugakerfið þitt er á við níræðing (nei, þetta orð er ekki til en þú veist hvað ég meina..) Ég stekk þó ekki sjálfur inn í jökulkalda sturtuna á morgnanna eins og ekkert sé, tilhugsunin er alltaf frekar óheillandi, en ég læt mig hafa það og ávinningurinn leynir sér ekki.

Þú sem níræðingur hugsar eflaust núna: "Afhverju myndi nokkrum manni detta til hugar að fara í kalda sturtu þegar það er í boði að hafa það notalegt í 39 gráðunum?".

Það vill bara svo til að við erum með ákveðið hitastillikerfi í líkamanum sem mikilvægt er að örva til að viðhalda góðri heilsu. Í dag höfum við það svo asskoti fínt að það þarf aldrei neinum að verða kalt. 66° norður loðkraginn þinn, upphitaði bíllinn þinn, ullarteppið þitt og þykka dúnsængin þín sjá heldur betur fyrir því.

Ég er ekki endilega að segja að allt þetta sé slæmt, en það eru vissulega tækifæri þarna til að prófa aðra hluti sem vega upp á móti eins og t.d. smá kalt vatn. Með því að ögra líkamanum aðeins og láta hann hafa fyrir því að halda á þér hita þá fyrst fær hraustleikinn að blómstra, trúðu mér.

Ef þú hefur áhuga á því að:

  • Styrkja ónæmiskerfið

  • Minnka bólgur í líkamanum

  • Auka blóðflæði

  • Auka fitubrennslu

  • Fá daglega æfingu í núvitund

  • Halda húð og hári heilbrigðu

  • Auka orku og vellíðan

  • Auka hormóna framleiðslu

  • Hugsanlega lengja "líf kynjanna" ;)

Láttu þig þá hafa það og skelltu þér í kalda sturtu.

Hvernig skal byrja?

Út frá minni reynslu skiptir máli að vera í að minnsta kosti 3 mínútur til þess að fá sem mest útúr þessu. Fyrir suma getur verið of mikið að demba sér beint undir kalda bununa, þá mæli ég með að byrja á hitastigi sem færir þig út fyrir þægindarammann en er þolanlegt í 3-10 mín. Á hverjum degi lækkar þú síðan hitastigið og áður en þú veist af ertu kominn í það kaldasta sem sturtan bíður upp á. Ýttu þér út fyrir þægindarammann en hlustaðu jafnframt á hvað líkaminn þinn þolir.

 

Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem læknisráðgjöf. Notkun upplýsingana sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.


0 comments

Comments


Skráðu þig á póstlistann!
360 Heilsa .jpg

Smelltu
til að hlusta!

bottom of page