Er stressið að stíga þér til höfuðs?
Ég hef tekið eftir því hjá fólki að þeir sem eru undir krónísku álagi eru oftar en ekki orðnir ónæmir fyrir því.
Langvarandi streita er ekki óalgeng hjá fólki í vestrænu samfélagi í dag þar sem ALLT þarf að gerast og það helst í gær. Ég heyri oft setningar frá fólki eins og: "Ég þrífst bara best undir álagi" "En ég er samt ekkert stressaður" "Ég verð bara alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni" "Ég get ekki gert ekki neitt" Þetta er allt gott og blessað en í þessum setningum leynast oft vegsummerki um manneskju sem er búin að aðlagast óheilbrigðu langvarandi álagi.
Dæmi um andleg einkenni ofálags:
Stutt í pirring, ergju eða skapmikla hegðun
Stjórnleysistilfinning eða þörf á að taka stjórn á hlutum
Erfitt með slökun/afslöppun (slökkva á hugsunum)
Lélegt sjálfsmat, einmanaleiki, þunglyndi
Kvíðatilfinning eða félagsfælni
Líkamleg einkenni:
Lítil orka
Hausverkir
Magaóeirð, niðurgangur, hægðatregða eða ógleði
Stífir vöðvar
Hraður hjartsláttur
Erfiðleikar með svefn
Tíðar pestir og kvef
Lægri kynhvöt
Svitaköst
Þurr munnur og erfiðleikar með að kyngja
Hertur kjálki og gníst í tönnum
Kaldir lófar og fætur
Taugaveiklun, titringur eða suð í eyrum
Ef nokkur eða flest af þessum atriðum eru kunnugleg fyrir þér þá eru það nokkuð augljósar vísbendingar um að ofálag vegna streitu eigi sök að máli.
Hvað er stress í raun og veru? Margir halda að stress líti einhvern veginn svona út.
Hjá einhverjum getur það vissulega verið svo en hjá öðrum getur stress líst sér á allt annan og minna áberandi hátt. Við þurfum nauðsynlega á stressi að halda til að halda okkur heilbrigðum en um leið og það verður of mikið þá fara vandræðin að segja til sín. Athugaðu þó að fyrir líkamanum er stress bara stress. Stress má gróflega flokka í 3 þætti. Allir þessir þættir safnast fyrir í sömu fötuna og jafnvægið snýst um að yfirfylla hana ekki.
Líkamlegt stress
Þegar við hreyfum okkur þá framköllum við náttúrulegt álag (stress) á líkamann sem sendir honum skilaboð um að byggja okkur upp og halda okkur hraustum og heilbrigðum. Of mikil hreyfing hins vegar brýtur niður líkamann og ónæmiskerfið vegna ofálags (stress). Nokkur önnur dæmi sem hér mætti nefna eru svefnleysi, léleg líkamsstaða/líkamsbeiting og ofþyngd.
Andlegt/tilfinningalegt stress Rannsóknir hafa sýnt að það eitt að vera einmana hefur virkilega slæm áhrif á líkamlega heilsu. Andlegt ástand og tilfinningar hafa augljóslega áhrif á líkamann. Dæmi um jákvætt stress eru uppbyggjandi hugsanir, þrautir og önnur heilabrot og þess háttar. Neikvætt form af stressi hér gæti verið rifrildi og leiðindi í samböndum, fjárhagsáhyggjur og neikvæðar hugsanir.
Efnafræðilegt stress Dæmi um neikvæða efnafræðilega streituvalda eru ruslfæði, áfengi, tóbak (vape), mengun bifreiða, svifryk frá malbiki, þungamálmar úr sjávarfangi, málning og önnur iðnaðarefni, hreinsivörur, gerviefni í mat og svo lengi mætti telja. Dæmi um jákvætt efnafræðilegt stress eru þau lífsnauðsynlegu efni sem líkaminn framleiðir sjálfur eins og ýmis hormón, D vítamín og fleira.
Ræktun á góðri heilsu snýst um að finna heilbrigt jafnvægi þessara þátta. Ef þú lendir í rifrildi við maka þá eru þolmörkin væntanlega lægri fyrir álagi á öðrum sviðum eins og í líkamsrækt eða vinnu (andlegt á móti líkamlegu stressi). Ef að þú vinnur í kringum málningu eða önnur spilliefni daglega þá þarf líkaminn að vinna yfirvinnu til að losa sig við þessi efni sem mun hafa áhrif á þolmörk hinna þáttanna (efnafræðilegt á móti líkamlegu/andlegu). Eina leiðin til að uppskera raunverulegt heilbrigði er að vera meðvitaður um þessa þætti og rækta þá á jákvæðan hátt. Stress er jákvætt, langvarandi stress er neikvætt. Vertu meðvitaður um hvaðan stressið er að koma og þú myndar heilbrigðara samband við líkamann þinn.
Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem læknisráðgjöf. Notkun upplýsingana sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.
Comments