top of page

Lykillinn að árangri... Í öllu


Þegar einstaklingur kemur til mín í þjálfun þá byrjar hann yfirleitt á því að útskýra fyrir mér af hverju hann ákvað að sækja sér aðstoð einkaþjálfara og hver markmið og áherslur hans eru í þjálfun.

Svörin eru yfirleitt eitthvað í þessa áttina: "Mig langar að komast í gott form og vera heilbrigður, taka mataræðið í gegn og koma hreyfingu inn í daglega rútínu".

Flott er, segi ég. Í framhaldi af því förum við yfir þá lykilþætti sem viðkomandi þarf að tileinka sér til að ná tilteknum markmiðum.

Nægilegur svefn, takmörkuð sætindi og ruslfæði, hollt mataræði og ákveðið form af streitustjórnun eru meðal þeirra þátta sem þarf að fylgja.

Það skiptir mig miklu máli að fólk í þjálfun hjá mér sýni verkefnunum framfylgni svo ég spyr reglulega spurninga eins og: "Jæja, hvað segirðu...”

 • “Fórstu í háttinn fyrir kl.11 í gær?"

 • "Hvernig var mataræðið hjá þér í gær?"

 • "Ertu búinn að vinna í streitustjórnunar æfingunum sem við töluðum um?"

 • …..

Margir standa sig mjög vel og taka öllum verkefnum föstum tökum. En á meðan virðast aðrir alltaf vera að misstíga sig...

"Æjj, ég var í tölvunni allt of lengi og endaði á að sofna ekki fyrr en um 1 leytið…"

"Æjj, ég var búinn að standa mig þvílíkt vel en svo missti ég mig alveg í ruglinu um helgina…"

"Æjj, það er búið að vera svo brjálað að gera að ég hef bara ekki komist í það enn þá…"

Ég velti mér lengi upp úr því hvernig á stæði að fólk setji sér markmið, og jafnvel borgi einhverjum eins og mér til að fá aðstoð, en finnur síðan ekki drifkraftinn til að framfylgja því sem þarf til.

Hver held ég að sé ástæðan? Ég held að þessir einstaklingar þurfi að finna sér skýrari tilgang í lífinu. Það hljómar kannski ýkt fyrir einhverjum en rannsóknir hafa sýnt að með því að móta þér skýran tilgang í lífinu eykur þú líkurnar á hamingjusömu og heilsusamlegu lífi. Þú ert líklegri til að setja þér uppbyggjandi markmið og yfirstíga hindranir með jákvæðu viðmóti.

Hér að neðan eru nokkur atriði sem munu vekja þig til meðvitundar um hver þinn tilgangur í lífinu er.

 1. Finndu út hver drauminn þinn er. Draumurinn þinn er það sem þig dreymir um að gera/verða/skapa í lífinu. Dæmi: Draumurinn minn er að aðstoða fólk við að bæta heilbrigði, komast í betra form, styrkjast og verða betri útgáfa af þeim sjálfum. Hvað myndir þú gera í lífinu ef peningar væru ekki til?

 2. Skapaðu þér lífsgildi út frá draumnum þínum. Samkvæmt orðabók eru gildi skilgreind sem: "Meginreglur eða staðlar um hegðun og/eða skilgreining hvers og eins um hvað er mikilvægt í lífinu” Þessi gildi eru einfaldlega ákveðið sett af reglum sem þú setur þér og gerir að vana. Reglurnar ættu að styðja drauminn þinn og þar með færa þig nær honum með hverjum deginum.

Hvaða gildi hef ég, undirritaður, til þess að geta uppfyllt drauminn minn við að aðstoða fólk við að bæta heilbrigði?

Fyrir það fyrsta þá kýs ég að vera heilbrigður. Ég vil vera gangandi dæmi um það sem ég predika við þá sem ég þjálfa. Þess vegna, til dæmis;

 • Neyti ég ekki gos, nammi né annað ruslfæði

 • Vel ég fyrsta flokks næringu eftir fremsta megni

 • Fer ég upp í rúm fyrir kl.11 á hverju kvöldi

 • Hreyfi ég mig reglulega

 • Tileinka ég mér streitustjórnunaraðferðir eins og hugleiðslu og þess háttar.

Persónulega myndi ég ekki taka mark á næringarfræðingnum sem er í yfirþyngd.

Eða fá ráð frá hjartalækninum sem er með of háan blóðþrýsting.

Eða hlusta á heilsuráðgjafann sem er sjálfur ekki heilbrigður.

Þess vegna hef ég útbúið þessi gildi sem ég fylgi til að geta uppfyllt minn draum í lífinu.

 • Finndu þinn núverandi draum í lífinu

 • Skrifaðu niður þau lífsgildi sem þú ákveður að séu nauðsynleg að fylgja til þess að uppfylla drauminn

Athugaðu svo að ef að þú átt erfitt með að fylgja gildunum þínum og framfylgja því sem þú þarft að gera, þá hefur þú einfaldlega ekki fundið rétta drauminn.

“What do you love enough to change for?"

 

Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem læknisráðgjöf. Notkun upplýsingana sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.


0 comments

Comments


Skráðu þig á póstlistann!
360 Heilsa .jpg

Smelltu
til að hlusta!

bottom of page