top of page
Writer's pictureRafn Franklin Johnson

Bókin sem mun GJÖRBREYTA viðhorfi þínu til mataræðis!

Updated: Feb 26, 2019


Segjum sem svo að þú ætlir að komast að því hvert leyndarmálið sé að framúrskarandi heilsu. Þú hefur um tvennt að velja. Fara á næsta sjúkrahús og rannsaka allt veika fólkið og sjá hvað það er að gera? Eða. Fara og leita af heilbrigðasta fólki veraldar og rannsaka hvað það er að gera. Hvað velur þú? Persónulega myndi ég skoða heilbrigða fólkið. Það er líka einmitt það sem tannlæknirinn og vísindamaðurinn Dr. Weston Price (oft kallaður Charles Darwin næringarfræðinnar) ákvað að gera árið 1930. Það sem vakti athygli hans var að bæði tannheilsa og almenn heilsa sjúklingana hans var farið að hraka með hverju skiptinu sem þau mættu í stólinn. Price taldi sterk tengsl vera á milli lélegrar tannheilsu og líkamlegrar heilsu. Hann tók eftir því að þeir sjúklingar sem voru með verstu tannheilsuna þjáðust yfirleitt af einhverjum kvillum, sjúkdómum eða voru veikburða með dapurlega líkamsbyggingu. Dr. Price og konan hans héldu af stað í 10 ára ferðalag til 14 frumbyggjaþorpa, allt frá svissnesku Ölpunum yfir til Afríku og Ástralíu. Hann rannsakaði tannheilsu, líkamlegt heilsufar, tók sýni úr matvælum og safnaði litlum 18.000 ljósmyndum af tönnum og andlitsbyggingu fólks. Megnið af þessum myndum er að finna í bókinni hans "Nutrition and Physical Degeneration".

Það fyrsta sem kom Dr. Price verulega á óvart var að allir frumbyggjarnir sem

hann skoðaði voru að meðaltali með minna en 1 tannskemmd og með beinar og hvítar tennur.

Þó hafði ekki ein einasta manneskja svo lítið sem heyrt talað um tannbursta á ævinni né tileinkað sér annað form af hefðbundinni tannhirðu. Heilbrigðar tennur voru þó ekki það eina sem einkenndi frumbyggjana. Fólkið var hraust, með sterka líkamsbyggingu og þrátt fyrir erfið lífsskilyrði oft á tíðum voru pestir varla sjáanlegar.


Börnin í svissnesku Ölpunum busluðu gjarnan berfætt í köldum lækjum um hávetur án þess að fá svo lítið sem kvef. Sjúkdóma eins og berklabólgu, sem var skæður sjúkdómur á þessum tíma, var hvergi að finna þrátt fyrir að fólk hafi komist í snertingu við aðra smitaða. Raunin var sú að helstu sjúkdómar nútímans á borð við sykursýki, krabbamein, hjarta- og æða sjúkdóma, Parkinson's, Alzheimer og gigt voru varla sjáanlegir. Hvað borðaði Þetta fólk? Dr. Price tók fljótlega eftir því að mataræði fólksins var afar mismunandi eftir því hvar í heiminum það bjó. Sumstaðar var borðað mikið af kjötafurðum og sjávarfangi á meðan á öðrum stöðum minna. Í litlu þorpi í svissnesku Ölpunum myndaði rúgbrauð, ostar og smjör meginpartinn af mataræðinu á meðan Eskimóarnir á Grænlandi borðuðu nánast 100% fitu og prótein sem kom úr fisk, hvalkjöti, rostungum og selum. (Athugið að þarna er um að ræða hreint rúgbrauð en ekki sykurrúgbrauðið sem þú finnur í matvörubúðum í dag. Mjólkurvörurnar voru ógerilsneyddar og sjávarfangið ekki úr fiskeldi né alið á sýklalyfjum eða hormónum). Dr. Price var sjálfur grænmetisæta og því kom honum mikið á óvart að finna hvergi ættbálka sem voru grænmetisætur. Þorpið sem neytti minnst af dýraafurðum (The Dinks of Sudan í Afríku) var heilsuveikasta fólkið að sögn Price. Þeirra mataræði samanstóð aðallega af baunum, graskeri, maís, grænmeti og ávöxtum. Price nefnir nokkur mynstur í bókinni sem samfélögin áttu sameiginleg þegar kom að mataræðinu. Á öllum þeim stöðum sem hann skoðaði var að finna gerjaðan eða bakteríuríkan mat af einhverju tagi sem neytt var daglega. Matur eins og ógerilsneyddir ostar, smjör og jógúrt, gerjaðir drykkir, gerjaður fiskur og fleira. (vörur í afar skornum skammti í nútíma samfélagi). Sjávarfang myndaði stærstan part af mataræði flestra og fituríkustu hlutirnir (t.d. hrogn og lifur) voru eftirsóknarverðastir. Þessi matur sem fólkið borðaði var að sjálfsögðu óunninn og náttúrulegur. Hann innihélt engin bindiefni, rotvarnarefni né litarefni og engan viðbættan sykur (þótt náttúrulegri sætu úr hunangi og hlynsírópi hafi verið neytt í hófi). Það var ekkert til sem hét hvítt hveiti né dósamatur. Mjólkurvörurnar voru ógerilsneyddar, ófitusprengdar og alls ekki fitusneyddar. Dýrin voru alin á hreinum jarðveg sem ekki var sprautað skordýraeitri á né voru dýrunum gefin hormón eða sýklalyf. (Hvert erum við annars komin í dag, þegar það þarf að merkja kjötafurðir í búðum með "engin sýklalyf í þessari vöru"). Í stuttu máli, þá borðaði þetta fólk lífrænt. Matvælasýnin úr fæðu frumbyggjanna leiddu einnig í ljós framúrskarandi næringargildi. Matvælin innihéldu 10x meira af fituleysanlegum vítamínum (A-D-E-K) og að minnsta kosti 4x meira af vatnsleysanlegum vítamínum, kalki og öðrum steinefnum en í vestrænum mat á þeim tíma. Maturinn var einnig mjög hár í ensímum þar sem neytt var mikið af gerjuðum og hráum mat. Ensím aðstoða við meltingu á matnum sem við borðum.

Þrátt fyrir að þorpin sem Price skoðaði hafi lifað á landinu voru flest nágrannaþorp farin að taka við innfluttum matvörum, maturinn sem myndar kjarna vestræns mataræðis í dag.

  • Hvítt hveiti

  • Hvítur sykur

  • Gerilsneyddar mjólkurvörur

  • Hvítt borðsalt

Sláandi afleiðingar þess að neyta slíkra matvara koma fram hér að neðan. Myndirnar sem teknar voru af Dr. Price segja meira en þúsund orð um hvað á sér stað þegar við förum að borða það sem við erum ekki gerð til að borða.

Hér má sjá heilbrigða afríska karlmenn. Allir fæddir og uppaldir á sínu náttúrulega mataræði. (Athugið að þarna var hvergi tannbursta, tannhvíttunarefni né tannlækna að finna).

Hér má sjá frumbyggja sem höfðu tileinkað sér vestrænt mataræði (á örfáum mánuðum eru tennurnar farnar að skemmast og heilsunni farið að hraka).

Hér eru síðan afkvæmi þeirra sem höfðu tileinkað sér vestrænt mataræði. Taktu eftir því að hér er að sjá skakkar tennur, skakkt bit og afmyndaða andlitsbyggingu.

Price tók einnig eftir öðrum hlutum sem byrjuðu að koma fram eins og gigt, klofinn gómur, beinþynning, tíðar pestir, sýkingar og sjúkdómar, skemmdar tennur og öndunarörðugleikar vegna afmyndunar á andlitsbyggingu.

Hér eru fleiri myndræn dæmi um þróun heilsufars út frá hinu vestræna mataræði.




Í dag erum við síðan búin að koma okkur upp allskonar leiðum til að "leiðrétta" þessi einkenni, með tannréttingum, lyfjum, kremum og aðgerðum. En þetta er í raun allt plástrar á sár sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að setja fókusinn á réttann stað.

Rannsóknir hafa sýnt að yfir 90% af þeim sjúkdómum sem plaga nútímasamfélag eru lífstílstengdir. Þetta þýðir einfaldlega að ÞÚ stjórnar því sjálf/ur með þeim ákvörðunum sem þú tekur hvort þú gerir líkamann berskjaldaðan fyrir sjúkdómum og öðrum kvillum eða heldur honum heilbrigðum. Líkaminn er stöðugt að senda þér skilaboð og vísbendingar um lífsstílinn þinn og þitt verkefni er að auka meðvitund og hlusta. Ekki setja bara plástur á sárið, kveiktu á meðvitundinni og spurðu sjálfa/n þig: "af hverju er þetta að gerast?"


0 comments
Skráðu þig á póstlistann!
360 Heilsa .jpg

Smelltu
til að hlusta!

bottom of page