top of page

Þú hreyfir þig en hreyfir þú þig rétt?


Flestar hreyfingar líkamans má flokka niður í 6 grunnhreyfingar.

  • Hnébeygjur

  • Framstig

  • Pressur

  • Tog

  • Beygjur

  • Snúning

  • Gang


Eins og sjá má á myndunum hér að ofan þá eru þetta allt hreyfingar sem að við þurftum hér áður fyrr að geta framkvæmt vel til þess að lifa af.

Áður en að líkamsræktarbylgjan hófst kringum 1950, þá litu líkamsræktar salir einhvern veginn svona út.


Bekkir, stangir, kaðlar, dýnur, boltar, kylfur, bjöllur og lóð. Eftir að líkamsræktarbylgjan hófst byrjuðu líkamsræktarsalir að líta einhvern veginn svona út.


Á fyrri myndinni má sjá skilvirk tól til þess að þjálfa okkar náttúrulegu hreyfingar, jafnvægi, stöðugleika og kjarna.

Á seinni myndinni má sjá óskilvirk tæki sem einangra vöðvahópa án þess að þjálfa nokkuð jafnvægi, stöðugleika né kjarna og skila sér á engan hátt út í daglegt líf.

Margt hefur breyst á þessum áratugum og það augljóslega til hins verra. Við erum farin úr því að þjálfa líkamann með þeim náttúrulegu hreyfingum sem eru líkamanum eðlilegar yfir í að hlamma okkur á tæki sem sjá um meira en hálfa vinnuna fyrir okkur. Hver er niðurstaðan? Þú þarft ekki annað en að líta í kringum þig þar sem annar hver maður þjáist af einhvers konar meiðslum í dag. Eflaust á krónísk kyrrseta þó einhvern þátt í því. Ræktin ætti að vera einn af þeim fáu stöðum þar sem þú situr ekki á rassinum en athugaðu að 95% af tækjum eru með sæti. Ef þú æfir einungis í tækjum þá ertu bara að fara úr einni kyrrsetu yfir í aðra. Sem betur fer hafa íþróttir eins og Crossfit, Bootcamp, Kraftlyftingar og fleiri litið dagsins ljós á síðustu árum sem hefur að mörgu leyti fært okkur "back to the basics".


Hér er mynd af hefðbundnum Crossfit sal. Þetta er ansi líkt myndinni hér að ofan af gömlu líkamsræktarstöðinni. En hvað er svona slæmt við tækin? Þegar þú æfir einungis í tækjum þá einangrar þú oftast vöðvahópa og kennir því líkamanum ekki það sem mætti kalla "vöðvasamvinnu" sem þjálfar jafnvægi, samhæfingu og stöðugleika. Æfingatækin eru föst í ákveðnum hreyfiferlum svo það er engin þörf fyrir líkamann til að búa til stuðning í kringum liði, virkja djúpkviðvöðvana né halda jafnvægi. Án þess að kafa of djúpt þá er hér sýnisdæmi um hvernig vöðvar vinna saman þegar þú gengur upp tröppur (eða tekur uppstig á bekk).


Tækin eru þó ekki endilega alslæm. Það er eflaust staður og stund fyrir þau eins og í endurhæfingu, sjúkraþjálfun og þessháttar. En ef þú þjálfar líkamann ekki aðallega í hans 6 náttúrulegu hreyfingum þá byrja vandræðin fyrr eða síðar að banka á dyrnar.

 

Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem læknisráðgjöf. Notkun upplýsingana sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.


0 comments
Skráðu þig á póstlistann!
360 Heilsa .jpg

Smelltu
til að hlusta!

bottom of page